Guðjón er ekki í atvinnuleit

Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson. mbl.is/G.Rúnar

Gengi Skagamanna í Landsbankadeildinni hefur ekki verið upp á marga fiska og situr liðið í þriðja neðsta sæti eftir 8 leiki. Fátt virðist ganga upp í sókn og vörn hjá ÍA. Guðjón Þórðarson, þjálfari liðsins, er bjartsýnn á að gengi liðsins muni lagast á næstunni og hann er ekki að leita sér að nýrri vinnu á erlendri grund.

Skagamenn komu verulega á óvart í fyrra með því að enda í þriðja sæti deildarinnar. Væntingarnar voru meiri í ár hjá stuðningsmönnum liðsins en byrjunin hefur ekki verið sem best. Guðjón telur að það sé hugarfar leikmanna sem þurfi að lagast.

„Það sem er að gerast í kollinum á mönnum er að það eru allir að bíða eftir því að einhver annar taki af skarið,“ segir Guðjón en hann telur ekki að það vanti leiðtoga í liðið.

„Það eru tjáskiptin og samvinnan sem er hluti af vandamálinu. Það vantar meiri samfellu og ákefð í liðið.

Í liði ÍA eru fjórir erlendir leikmenn. Danskur markvörður sem fenginn var til þess að leysa Pál Gísla Jónsson af hólmi sem meiddist rétt fyrir mótið. Þrír Króatar eru í Skagaliðinu en Guðjón segir að nýir leikmenn verði ekki fengnir til liðsins þegar félagaskiptaglugginn opnar aftur um miðjan júlí.

„Við erum ekki að leita að neinum leikmönnum. Það hefur ekkert verið rætt í okkar hóp að sækja einhverja leikmenn. Við þurfum að klára þetta sjálfir.

Ósáttur við stöðuna

Stuðningsmenn ÍA eru misjafnlega sáttir við árangur liðsins og þjálfarinn dregur hvergi undan þegar hann er spurður um stöðu liðsins. Um s.l. helgi fór liðið í golf saman á Þórisstöðum þar sem „Akranes-skvaldur“ var leikið og var það hluti af því að losna undan því „skvaldri“ sem einkennt hefur liðið í sumar.

„Ég er mjög ósáttur við stöðu liðsins. Ef menn halda það að ég sé í fótbolta og reyni ekki að vinna þá er það mjög rangt. Við erum búnir að æfa mikið. Það hafa allir lagt mikla vinnu í þetta verkefni en hlutirnir hafa ekki gengið upp hjá okkur fram til þessa. Það eru ýmsar ástæður fyrir því og við ætlum að leysa það innan hópsins.“

Í umræðunni

Mikil umræða hefur verið að undanförnu þess efnis að forráðamenn skoska liðsins Hearts hafi áhuga á því að fá Guðjón í starf sem knattspyrnustjóra. Guðjón segir að hann sé ekki á förum en hann er ánægður að vita til þess að nafn hans sé enn í umræðunni úti í hinum stóra fótboltaheimi. Nánar á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag 
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert