KR-ingurinn Guðmundur Reynir Gunnarsson hefur síðustu daga verið orðaður við norska knattspyrnuliðið Brann. Norska blaðið Bergensavisen fjallaði ítarlega um það í gær og hafði eftir Loga Ólafssyni, þjálfara KR, að franskt stórlið fylgdist grannt með leikmanninum unga.
„Ég veit í raun og veru ósköp lítið um þetta allt saman. Ólafur Garðarsson sem er umboðsmaðurinn minn sagði mér reyndar frá því að það hefðu komið útsendarar frá Brann á leikinn við HK á mánudag. Svo skilst mér að KR viti eitthvað um þetta franska lið. Hins vegar veit ég ekki einu sinni hvaða lið það er og er ekkert að stressa mig á þessu. Tek þessu öllu bara með mestu ró.
Auðvitað myndi ég setjast niður og skoða það ef ég fengi tilboð að fara eitthvað út. En í augnablikinu einbeiti ég mér bara að KR og ætla að klára tímabilið með félaginu,“ sagði Guðmundur Reynir í samtali við Morgunblaðið í gær. thorkell@mbl.is