Landsliðskonan Greta Mjöll Samúelsdóttir knattspyrnukona úr Breiðabliki er með slitið krossband í hné og mun hvorki leika meira með félagsliði sínu né landsliðinu það sem eftir er af árinu.
„Ég er í raun ennþá að melta þessar fréttir. Ég meiddist síðasta sunnudag á æfingu og þá kom strax til greina að krossbandið í hnénu hefði farið. Hins vegar fékk ég ekki staðfestingu á þessu fyrr en í gær og það var alveg gífurlegt sjokk,“ sagði Greta Mjöll Samúelsdóttir í samtali við mbl.is.
„Öll mín plön hafa raskast við þetta og ég veit eiginlega ekkert hvað skal gera. Það getur tekið allt að ár að jafna sig að svona meiðslum. Það er mjög langur tími. Ég ætti að fara í háskólanám í Bandaríkjunum eftir þrjár vikur á fótboltastyrk en núna er það allt í uppnámi. Það er eitthvað sem ég þarf að skoða hvort ég treysti mér út á þessum tímapunkti. Endurhæfingin er löng og ströng. Ég tek ákvörðun um þetta með fjölskyldunni á næstu dögum,“ sagði Greta Mjöll.
Ljóst er að um gríðarlegt áfall er um að ræða fyrir Breiðablik og íslenska landsliðið og ekki síður leiðinlegt fyrir Gretu að missa af hinum mikilvæga landsleik gegn Frakklandi í haust. „Það má vel vera að ég skelli mér bara til Frakklands að horfa á stelpurnar. Það yrði erfitt að horfa bara á leikinn í sjónvarpinu eftir að hafa verið með hópnum í öllum hinum leikjunum. En ég þarf bara að melta þetta allt saman núna og fara yfir öll mín mál núna.“