Um dómgæslu og dómaramál

Leifi Garðarssyni þjálfara Fylkis vísað af bekknum vegna orðbragðs.
Leifi Garðarssyni þjálfara Fylkis vísað af bekknum vegna orðbragðs. mbl.is/Árni Sæberg

Hörður Hilmarsson, fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu og síðar þjálfari, skrifar í dag grein um knattspyrnudómara í Morgunblaðið og segir þar m.a.: : "Dómarar sem eru sterkir karakterar öðlast virðingu leikmanna og þjálfara og þurfa ekki að stjórna leiknum með því að veifa spjöldum í tíma og ótíma."

Nokkur atriði úr grein Harðar:  

. . . Að undanförnu hefur mikið verið fjallað um frammistöðu dómara í knattspyrnuleikjum á Íslandi á yfirstandandi keppnistímabili, einkum í Landsbankadeild karla. Ýmsar skrautlegar uppákomur hafa litið dagsins ljós og ekki allar til þess fallnar að auka vegsemd íslenskrar knattspyrnu.

. . . Það er auðvelt að sitja uppi í stúku eða heima í stofu og segja að leikmenn og þjálfarar eigi að hafa hemil á sér og sætta sig við alla úrskurði dómara, hversu ósanngjarnir eða rangir sem mönnum finnast þeir vera.

. . . Spennustig er oft hátt meðan á leik stendur, enda mikið í húfi. Úrslit leikja geta skipt sköpum fyrir afkomu þjálfara (og að einhverju leyti leikmanna) svo það er eðlilegt að mönnum sé ekki sama, en að sjálfsögðu eiga allir að sýna hverjir öðrum kurteisi og íþróttaanda, jafnt leikmenn og þjálfarar gagnvart dómara og öfugt.

. . . Það getur ekki verið rétt að refsa mönnum harðar fyrir misjafnlega saklaus orð sem sögð eru í hita augnabliksins heldur en gróf brot sem geta slasað mótherja.

. . . Dómarar geta kunnað knattspyrnulögin upp á 10, en ef þeir þekkja ekki leikinn, þá geta þeir ekki greint á milli viljandi brota og óviljandi, sjá ekki mun á broti eða leikaraskap og verða aldrei góðir dómarar.

. . . Dómarar sem eru sterkir karakterar lenda ekki í vandræðum. Þeir öðlast virðingu leikmanna og þjálfara og þeir þurfa ekki að hafa stjórn á leiknum með því að veifa spjöldum í tíma og ótíma. Slíkt ber vott um óöryggi en ekki góða dómgæslu.

. . . Ég veit ekki hverjir meta frammistöðu dómara á vegum KSÍ, en það ætti að vera dómstóll eða nefnd sem innihéldi ekki bara knattspyrnudómara heldur einnig þjálfara og leikmenn, aktíva sem fyrrverandi. Þá kæmu örugglega fram sjónarmið sem væru öllum dómurum hollt að heyra.

Greinina í heild má lesa á bls. 28 í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert