Keflvíkingar eru komnir í lykilstöðu í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu karla þegar Landsbankadeildin er nákvæmlega hálfnuð. Keflvíkingar deildu efsta sætinu með FH-ingum þegar 11. umferðin hófst en eru nú með þriggja stiga forskot eftir 2:0 sigur á Fram í kvöld.
Breytir það miklu fyrir Keflvíkinga að geta nú ráðið eigin örlögum sjálfir? ,,Já þannig séð. En það er öll seinni umferðin eftir og við erum nú að fara inn í mjög erfitt leikjaplan, þar sem við spilum fjóra leiki í röð á útivöllum. Þrjá í deildinni og einn í bikarnum. Það þarf bara að vinna eftir markmiðunum í hverjum einasta leik. Það er bara þannig. Þetta verður jafnt allt til loka mótsins. Það verða fjögur til fimm lið í toppbaráttunni. Ég er alveg viss um það," sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga í samtali við mbl.is.
Kristján hefur fengið gríðarlega mikilvægt framlag frá varamönnum sínum í undanförnum leikjum. Þórarinn gerði út um leikinn gegn Fram í kvöld með tveimur mörkum og gegn FH kom Magnús Þorsteinsson inn á sem varamaður og skoraði sigurmarkið. Það hlýtur að vera góð tilfinning fyrir Kristján þegar mennirnir sem hann skiptir inn á ráða úrslitum: ,,Já ég er sammála því. Við þjálfararnir höfum predikað yfir leikmönnunum að það skipti allir jafn miklu máli í leikmannahópnum. Þeir skilja það, hvort sem þeir byrja inn á eða koma inn á sem varamenn. Það þurfa allir að skila góðri vinnu. Markaskorunin dreifist töluvert á menn og stoðsendingarnar einnig. Svo eru varnarmennirnir líka að standa vaktina vel."