„Það var náttúrulega það besta sem gat komið fyrir okkur að ná að jafna strax eftir að þeir skoruðu. Svo höfum við ákveðin gæði í Scotty [Scott Ramsay] þarna frammi, og hann sýndi hvers hann er megnugur með því að koma okkur yfir,“ sagði Orri Freyr Hjaltalín, fyrirliði Grindavíkur, eftir jafnteflið við Þrótt í kvöld.
Þróttarar komust yfir í leiknum en Grindvíkingar jöfnuðu eftir hornspyrnu Scott Ramsay, og hann sýndi frábæra takta og skoraði sjálfur þegar korter lifði leiks. Þróttarar náðu hins vegar að jafna úr vítaspyrnu skömmu fyrir leikslok.
Grindvíkingar hafa enn ekki landað sigri á heimavelli í sumar, en verið þeim mun betri á útivelli. Orri segist engar skýringar hafa á þessu.
„Við ætlum okkur alltaf þrjú stig á heimavelli en það virðist ganga frekar illa. Það var eins og að of margir í okkar liði væru ekki tilbúnir í þennan leik og það er of dýrt í svona baráttu. En þetta á eftir að koma hjá okkur hérna á heimavelli og við erum í ágætri stöðu eftir fyrri umferðina,“ sagði Orri Freyr.
Tomasz Stolpa var rekinn af velli í fyrri hálfleik, og eftir það var róðurinn erfiður fyrir Grindvíkinga. Þeir gáfust þó ekki upp og náðu eins og áður segir í eitt stig úr leiknum. Orri kvaðst ekki viss um að seinna gula spjald Stolpa, sem hann fékk fyrir mótmæli, hafi átt rétt á sér.
„Hann er drengur góður og ég trúi varla að hann hafi verið það orðljótur að hann hafi átt skilið að fara út af. Dómarinn verður að setja ákveðna línu, og gerir það með þessu, en svo var hann alls ekki samkvæmur sjálfum sér það sem eftir var af leiknum,“ sagði Orri.