Guðjón: Enn að vinna í okkar markmiðum

Pálmi Rafn Pálmason í Val og Einar Orri Einarsson í …
Pálmi Rafn Pálmason í Val og Einar Orri Einarsson í Keflavík eigast við að Hlíðarenda í dag. mbl.is/Brynjar Gauti

„Fyrri hálfleikurinn var betri hjá okkur og þá áttum við möguleika á að ná meiri forystu," sagði Guðjón Árni Antoníusson, sem var fyrirliði Keflvíkinga gegn Val í dag, í fjarveru Guðmundar Steinarssonar. Liðin skildu jöfn, 1:1, í Landsbankadeild karla að Hlíðarenda, Keflavík var lengi yfir eftir að Hólmar Örn Rúnarsson skoraði á 23. mínútu en Helgi Sigurðsson jafnaði fyrir Val á 79. mínútu.

„Valsmenn voru mikið meira með boltann í seinni hálfleik en sköpuðu sér ekki mikið af færum. Við verðum hinsvegar að vera sáttir, við komum á erfiðan útivöll og förum þaðan með eitt stig, enda þótt við hefðum að sjálfsögðu viljað að þau væru þrjú," sagði Guðjón við fréttavef Morgunblaðsins.

„Það gengur vel og það eru allir í hópnum klárir í slaginn, og vonandi höldum við svona áfram. Ég viðurkenni að ég sá ekki það fyrir að við yrðum í þessari stöðu, efsta sætinu, þegar mótið væri ríflega hálfnað og vissulega höfum við farið nokkuð framúr væntingum. En við vissum líka að við værum með gott lið, og við fengum góðan liðsstyrk rétt fyrir mótið.

Við lítum björtum augum framá veginn en tökum áfram einn leik fyrir í einu, við erum enn að vinna í okkar markmiðum og ætlum fyrst að reyna að ná þeim og síðan getum við endurskoðað þau. Þetta var bara fyrsti leikurinn í seinni umferðinni og það er nóg eftir af mótinu," sagði Guðjón Árni Antoníusson.

Hann tók við fyrirliðabandinu af Guðmundi Steinarssyni sem hvíldi í dag vegna vægrar tognunar í læri. Guðmundur sagði við fréttavef Morgunblaðsins að hann hefði ekki viljað taka neina áhættu og yrði tilbúinn í næsta leik Keflvíkinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert