Kveðjuleikur Pálma Rafns með Valsmönnum í dag

Pálmi Rafn, til vinstri, ásamt Bjarna Ólafi Eiríkssyni.
Pálmi Rafn, til vinstri, ásamt Bjarna Ólafi Eiríkssyni. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Fyrsti leikurinn í seinni umferð Landsbankadeildar karla í knattspyrnu fer fram í dag þegar Íslandsmeistarar Vals fá topplið Keflvíkinga í heimsókn á Vodafone-völlinn að Hlíðarenda. Þetta verður kveðjuleikur Pálma Rafns Pálmasonar með Valsmönnum en hann er sem kunnugt er á leið til norska úrvalsdeildarliðsins Stabæk.

Þegar liðin áttust við í 1. umferð deildarinnar laugardaginn 10. maí unnu Keflvíkingar góðan sigur í miklum markaleik, 5:3, en Keflavíkingar komust í 2:0 eftir fimm mínútna leik. Valsmenn eiga því harma að hefna á heimavelli sínum í dag.

Keflvíkingar hafa þriggja stiga forskot í toppsætinu en Suðurnesjaliðið hefur 25 stig, FH 22 og Fjölnir 21. Valsmenn hafa verið að sækja í sig veðrið í undanförnum leikjum og eftir þrjá sigurleiki í röð hafa þeir 19 stig og með sigri í dag geta þeir svo sannarlega gert sig gildandi í toppbaráttunni og opnað hana upp á gátt.

Leikurinn hefst klukkan 14 að Hlíðarenda og verður leikurinn í beinni textalýsingu hér á mbl.is og viðtöl við leikmenn og þjálfara verða birt á síðunni skömmu eftir leik.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert