Átta liða úrslitin í Visa-bikarkeppni karla í knattspyrnu fara fram í kvöld en nýir meistararnir verða krýndir í haust þar sem ríkjandi bikarmeistarar, FH-ingar, eru fallnir úr leik.
Stórleik kvöldsins verður að telja viðureign Breiðabliks og Keflavíkur sem mætast á Kópavogsvelli en þar leiða saman hesta sína tvö af bestu liðum landsins um þessar mundir og ekki er langt síðan liðin áttust við í einum skemmtilegsta leik sumarsins þar sem niðurstaðan varð 2:2 jafntefli.
Morgunblaðið fékk Þórhall Dan Jóhannsson, leikmann Hauka, til að spá í spilin fyrir leiki kvöldsins en Haukarnir fá Fylki í heimsókn.
Ætlum að skemmta okkur
,,Við höfum engu að tapa og mætum í þennan leik til að skemmta okkur. Pressan er á Fylkisliðinu og við ætlum að gera allt sem við getum til að vinna og komast áfram. Fylkir er deild ofar en við og er því klárlega sigurstranglegri aðilinn. Við erum litla liðið en ef Fylkir spilar eins og liðið gerði á móti Fram og í fleiri leikjum í sumar á meðan við náum fram toppleik er alveg möguleiki á Haukasigri,“ sagði Þórhallur sem er uppalinn Fylkismaður og var lykilmaður í Árbæjarliðinu til fjölda ára.
Keflavík besta lið landsins
Um viðureign Breiðabliks og Keflavíkur sagði Þórhallur: ,,Ég hef hrifist af báðum liðum í sumar enda bæði spilað mjög skemmtilegan og góðan fótbolta. Keflavíkurliðið er að mínu mati besta lið landsins og Blikarnir hafa sýnt frábær tilþrif þar sem ungu mennirnir, Jóhann Berg, Guðmundur Kristjánsson og fleiri hafa blómstrað. Í hörkuleik þá hallast ég að því að Keflavík hafi betur.“
KR-ingar óheppnir
KR tekur á móti Grindavík. ,,Þarna er annar flottur leikur. Grindavíkurliðið er gott með Scott Ramsay fremstan í flokki og það getur unnið hvaða lið sem er. Mér finnst KR-ingarnir hafa spilað vel lengst af í sumar. Þeir hafa verið óheppnir í síðustu leikjum en ég held að sigurinn falli þeirra megin.“
Erfitt hjá Víkingum
Í Grafarvoginum fá Fjölnismenn 1. deildarlið Víkings R. í heimsókn. ,,Ég hef ekki trú á að tap Fjölnis á móti Þrótti hafi nein áhrif á leikmenn Fjölnis. Þeir hafa svo gaman af því að spila fótbolta og ég held að þetta verði erfitt fyrir Víkinga og að Fjölnismenn vinni nokkuð sannfærandi.“ gummih@mbl.is