Ólafur H. Kristjánsson: Í augnablikinu erum við illstöðvanlegir

Marel Baldvinsson í baráttu við Kenneth Gustafson.
Marel Baldvinsson í baráttu við Kenneth Gustafson. mbl.is/Guðmundur Rúnar

Ólafur H. Kristjánsson og lærisveinar hans í Breiðabliksliðinu fögnuðu gríðarlega í búningsklefa sínum eftir sigurinn á Keflvíkingum í Visa-bikarnum í kvöld en Blikarnir tryggðu sér sæti í undanúrslitum með 3:2 sigri á toppliði Landsbankadeildarinnar.

,,Þetta var stórgóður leikur. Keflvíkingar eru með besta liðið í deildinni og fá þá í átta liða úrslitum í bikarnum var mjög erfitt. En við sýndum úr hverju við erum gerðir og tókst að knýja fram sigur en sigurinn hefði getað fallið hvorum megin sem er,“ sagði Ólafur við mbl.is eftir leikinn.

,,Kannski voru heppnari og duglegari en altént tókst okkur að leggja frábært lið að velli. Þegar allt er talið með þá held ég að við höfum verið aðeins sterkari aðilinn,“ sagði Ólafur.

Spurður hvort leiðin væri ekki bara greið í átt að bikarmeistaratitlinum eftir að hafa lagt bæði Íslandsmeistara Vals og topplið Keflavíkur að velli sagði Ólafur;

„Eigum við ekki að segja að leiðin sé greiðari eftir að hafa tekið þessi tvö lið út og Keflavík velti FH úr vegi sem við töpuðum fyrir í undanúrslitunum í fyrra. Ég vogaði mér að segja fyrir leikinn að það lið sem færi með sigur af hólmi færi ansi langt í keppninni.“

Nú hafið þið unnið fimm leiki í röð. Eru þið óstöðvandi?

,,Í augnablikinu erum við illstöðvandi en við munum halda áfram að vinna í þeim hlutum sem við höfum verið að vinna í. Það er feikilega góð stemning í hópnum og allir eru mjög samhentir og meðan svo er þá getur maður ekki annað en brosað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert