Tveir miklir reynsluboltar, Pálmi Haraldsson og Kári Steinn Reynisson, hafa æft með Akurnesingum í vikunni að því er fram kemur á vef félagsins. Hugsanlegt er að þeir komi við sögu í einhverjum leikjum Skagamanna það sem eftir lifir tímabilsins en lið ÍA er í fallsæti í Landsbankadeildinni og hefur ekki unnið leik rúma tvo mánuði.
Þetta eru tveir af leikjahæstu leikmönnum ÍA í efstu deild. Pálmi er annar leikjahæsti leikmaður félagsins, hefur leikið 206 leiki en aðeins Guðjón Þórðarson, fyrrum þjálfari liðsins, hefur leikið fleiri, eða 212 talsins. Árni Sveinsson er í þriðja sæti með 203 leiki og Kári Steinn fjórði með 199.
Kári Steinn lék með Akurnesingum á síðustu leiktíð en Pálmi lék síðast með Skagamönnum tímabilið 2006.