Bjarni genginn í raðir KR

Rúnar Kristinsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá KR, býður Bjarna Guðjónsson velkominn …
Rúnar Kristinsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá KR, býður Bjarna Guðjónsson velkominn til félagsins. www.kr.is

Knattspyrnumaðurinn Bjarni Guðjónsson er genginn til liðs við KR frá ÍA en þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem KR-ingar sendu frá sér á tólfta tímanum í kvöld. Bjarni skrifaði undir fjögurra ára samning við Vesturbæjarfélagið.

Bjarni mun því geta leikið með KR næstkomandi þriðjudag þegar liðið mætir Fjölni í Frostaskjólinu. Hann var samningsbundinn ÍA og því ljóst að KR hefur þurft að greiða fyrir kappann en kaupverðið var ekki gefið upp.

Bjarni hefur ítrekað verið orðaður við önnur lið eftir að faðir hans, Guðjón Þórðarson, hætti sem þjálfari ÍA. Valur og KR voru oftast nefnd í því sambandi en nú er orðið ljóst að Bjarni leikur með KR. Hann lék því sinn síðasta leik fyrir Skagamenn í kvöld þegar þeir töpuðu 5:2 fyrir FH.

Bjarna hefur verið úthlutuð treyja númer 18 hjá KR.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert