Sjaldan séð lið Fjölnis leika jafn vel

Albert Brynjar Ingason með boltann í kvöld en Óli Stefán …
Albert Brynjar Ingason með boltann í kvöld en Óli Stefán Flóventsson er skammt undan. mbl.is/Ómar

Valsmenn unnu sigur á Fjölnismönnum í Grafarvogi í kvöld í miklum markaleik, 3:2. Willum Þór Þórsson þjálfari Vals var að vonum ánægður í leikslok og hann segist sjaldan hafa séð Grafarvogspilta leika jafn vel og þeir gerðu í kvöld.

„Þetta var feikilega erfitt og ég hef sjaldan séð lið Fjölnis leika jafn vel og það gerði nú. Við höfðum þetta samt af á endanum og ég er mjög ánægður með þessi málalok og þessi þrjú stig sem eru okkur mjög mikilvæg,“ sagði Willum.

Kollegi hans hjá Fjölnisliðinu, Húsvíkingurinn Ásmundur Arnarsson, var sammála Willum með að spilamennska sinna manna hefði verið góð.

„Það má til sanns vegar færa að það er gríðarlega svekkjandi að tapa leik eins og þessum. Hins vegar get ég ekkert verið annað en ánægður með strákana því þeir spiluðu afar vel,“ sagði Ásmundur.

Ítarlega umfjöllun um leikinn er að finna í átta síðna íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert