„Það er alltaf dapurt að tapa á heimavelli en við bara spiluðum ekki nægilega vel. Það vantaði viljann til að vinna og hugarfar leikmanna var ekki með réttum hætti,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, eftir tapið gegn Grindavík í kvöld.
„Við fengum svo á okkur enn eitt markið úr föstu leikatriði en það kom svo smá líf í þetta hjá okkur eftir það og við hefðum hugsanlega getað jafnað metin, en heilt yfir lékum við bara ekki nógu vel,“ sagði Heimir. FH stjórnaði leiknum lengst af án þess þó að skapa sér mörg færi en Grindavík nýtti sín vel og skoraði eina markið.
„Grindavík spilaði sterkan varnarleik og mínir menn reyndu fullmikið af háum boltum og að fara upp miðjuna, þar sem þeir voru sterkastir, í staðinn fyrir að nýta kantana. Þess vegna töpuðum við.
Auðvitað er maður vonsvikinn enda vorum við í toppsætinu fyrir þennan leik og erum núna búnir að missa það til Keflavíkur, og það er alltaf slæmt,“ sagði Heimir, en FH er nú tveimur stigum á eftir Keflavík.
Ítarlega er fjallað um leikinn í 12 síðna íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun.