„Það sýnir karakterinn í mínu liði að við skyldum koma enn og aftur til baka eftir að hafa lent undir og ná í miklvægt stig," sagði Leifur Garðarsson þjálfari Fylkis við fréttavef Morgunblaðsins eftir jafnteflið gegn ÍA, 2:2, í dag.
„Við spiluðum ágætan fótbolta og núna seinni hluta mótsins erum við farnir að skapa okkur mikið meira af færum en áður. Nú þurfum við bara að nýta þau betur. Það var lykilatriði dagsins að tapa ekki gegn Skagamönnum því nú höldum við þeim áfram þremur sigurleikjum á eftir okkur. En það þýðir ekki að hugsa of mikið um það, næst leikum við gegn Þrótti og það er leikur sem við ætlum að vinna," sagði Leifur.
„Við nýttum ekki okkar sóknarfæri nógu vel eftir að við komumst 2:1 yfir. Eins bökkuðum við óþarflega mikið eftir það. Það var líklega sanngjarnt að Fylkismenn skyldu jafna þegar á heildina er litið en það hefði verið dýrmætt að ná þessum þremur stigum. En það eru sex leikir eftir, það var jákvætt að ná þó stigi. Við erum hvergi nærri hættir og það er nóg af stigum í pottinum. Það er hinsvegar slæmt að þurfa að skora 2-3 mörk til að vinna leikina," sagði Bjarki Gunnlaugsson, annar þjálfara ÍA, sem var í leikbanni og gat því hvorki spilað né stjórnað liðinu.
Sjá nánari viðtöl við þjálfarana og við leikmenn liðanna ásamt ítarlegri umfjöllun í 12 síðna íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun.