Kristján Valdimarsson, knattspyrnumaður úr Fylki, rotaðist í annað skiptið á þessu keppnistímabili þegar Árbæjarliðið gerði jafntefli við ÍA, 2:2, í gær. Rétt eins og í fyrra skiptið var það samherji hans, Fjalar Þorgeirsson, markvörður Fylkis, sem var þar að verki. Fjalar kom hlaupandi út úr marki sínu til að reyna að ná boltanum eftir fyrirgjöf Jóns Vilhelms Ákasonar en hljóp Kristján niður og Björn B. Sigurðarson nýtti sér það og skallaði boltann í mark Fylkis.
Kristján var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild en var á góðum batavegi í gærkvöld. „Hann vaknaði ekki fyrr en hann var kominn út í bílinn en svo var þetta á réttri leið. Ég á ekki von á öðru en hann mæti stálsleginn á æfingu á morgun,“ sagði Leifur Garðarsson, þjálfari Fylkis.
Ítarlega er fjallað um 16. umferð Landsbankadeild karla, sem fram fór í gær, í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.