Valur er með meistaratitilinn í höndunum eftir sigur á Fylki, 5:1, í næstsíðustu umferð Landsbankadeildar kvenna á Fylkisvellinum í dag. Fyrir lokaumferðina skilja þrjú stig Val og KR að en KR-konur þyrftu að sigra Aftureldingu með um eða yfir 20 marka mun og Valur að tapa fyrir Stjörnunni til að titillinn færi í Vesturbæinn.
Á 15. mínútu smeygði Margrét Lára Viðarsdóttir sér í gegnum vörn Fylkis og skoraði.
Hallbera Guðný Gísladóttir bætti við öðru marki á 37. mínútu.
Margrét Lára fékk stungusendingu upp völlinn, lék á markvörðinn og skoraði sitt annað mark og þriðja Vals.
Rakel Logadóttir tók góða sprett upp vinstri kantinn og gaf fyrir á Margréti Láru, sem lék á markvörðinn og skoraði með skoti í stöng og inn.
Margrét Lára fékk góða sendingu fyrir markið en lagði boltann fyrir Kristínu Ýr Bjarnadóttur, sem skoraði af öryggi.
Í snöggri sókn Fylkis á 87. mínútu barst boltinn til Ruth Þórðardóttur, sem skaut úr vítateig, Ása Dögg Aðalsteinsdóttir markvörður Vals varði en hélt ekki boltanum svo boltinn rann yfir marklínuna.