Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði þrennu fyrir Val gegn Fylki í Landsbankadeild kvenna á laugardaginn og þar með er ljóst að hún verður markadrottning deildarinnar eitt árið enn.
Margrét Lára, sem hefur gert 29 mörk í 17 leikjum í ár, sagði við Morgunblaðið eftir leikinn að hún væri farin að hugsa sér til hreyfings og hygðist fljótlega reyna fyrir sér erlendis.
„Ég einbeiti mér fyrst og fremst að Val í dag en held að minn tími á Íslandi sé að verða búinn og stefni á að fara utan í haust. Það gerist bara þegar það gerist og það eru spennandi tímar framundan. Umboðsmaður minn segir að stór lið úti í heimi hafi haft samband en ég hrindi því öllu frá mér fram yfir Íslandsmót og reyndar fram yfir árið, læt bara umboðsmanninn sjá um þetta,“ sagði Margrét Lára við Morgunblaðið.