„Okkur líður frábærlega. Við vissum að þetta yrði erfiður leikur enda Breiðablik mjög gott lið, og við höfum bæði tapað gegn því og gert jafntefli í sumar. Þessir leikir hafa verið jafnir og liðin skipst á að hafa yfirhöndina, og þannig var þetta í kvöld svo að sigurinn gat fallið hvorum megin sem var,“ sagði Pétur Hafliði Marteinsson, varnarmaður KR, eftir sigurinn á Blikum í gærkvöld.
Pétur jafnaði fyrir KR-inga en mark Blika kom úr vítaspyrnu sem dæmd var á Pétur.
„Ég datt og ég veit ekkert af hverju var dæmt, þannig að það er kannski betra að spyrja dómarann að því. Ég vildi endilega bæta fyrir vítið og þeir verja náttúrlega ekki svona sleggjur,“ sagði Pétur og hló dátt en hann skoraði einnig úr þriðja víti KR-inga af miklu öryggi.
Pétur, sem varð 35 ára í sumar, hefur leikið vel í miðri vörn KR og stóð fyrir sínu allar 120 mínúturnar í gær. Það virtist þó eins og hann ætlaði að fá skiptingu í leikhléi og Gunnlaugur Jónsson var klár á bekknum, en Pétur ákvað að hrista af sér þau athyglisverðu meiðsli sem hann varð fyrir.
„Ég fékk hælinn á Marel [Baldvinssyni], þessum mikla skrokki, í punginn og hann kramdi bara annað eistað. Ég fór þetta því bara á öðru eistanu eftir fyrri hálfleikinn,“ sagði Pétur.
Sjá allt um leik KR og Breiðabliks ásamt fleiri viðtölum í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.