Kristján Guðmundsson: Þetta sýnir hvað strákarnir ætla sér að gera

Kristján Guðmundsson.
Kristján Guðmundsson. mbl.is/Árni Sæberg

Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga, var ánægður með þann kraft sem einkenndi leik hans manna í síðari hálfleik, þegar Keflavík sigraði Breiðablik 3:1 í dag. Leikurinn var liður í 20. umferð Landsbankadeildarinnar og hafa Keflvíkingar nú átta stiga forskot á FH-inga sem eiga þó tvo leiki til góða. 

Breiðablik hafði 1:0 yfir í hálfleik en Keflvíkingar jöfnuðu strax í upphafi síðari hálfleiks. Kristján segir það hafa verið lykilatriði í leiknum: ,,Í hálfleik ræddum við það hvernig við ætluðum að útfæra okkar leik í seinni hálfleik á móti vindinum. Mér fannst það ganga nokkuð vel eftir. Við lentum einnig undir í síðasta leik og unnum einnig. Það sýnir bara ákveðnina í strákunum og hvað þeir ætla sér að gera. Við settum dæmið þannig upp að við ætluðum að vera búnir að jafna á fyrstu fimmtán mínútunum í seinni hálfleik.“

Spurður um „úrslitaleikinn“ gegn FH næstkomandi sunnudag þá fór Kristján varlega í sakirnar og vill frekar láta verkin tala: „Spennandi leikur gegn sterku liði. Það er alltaf spennandi að spila úrslitaleiki.“

Stigasöfnun Keflvíkinga er glæsileg sem af er Landsbankadeildinni en liðið er með 46 stig og hefur aðeins tapað tveimur deildarleikjum. Hefur þetta farið fram úr væntingum þjálfarans? „ Það er erfitt fyrir mig að svara því. Við vinnum þetta þrepaskipt. Skiptum mótinu upp í ákveðin þrep. Það getur vel verið að stigasöfnunin sé orðin ansi há. En ég veit ekki hvort þetta sé framar vonum. Við hugsum þetta aðeins öðruvísi,“ sagði Kristján í samtali við mbl.is. 

Nánar verður fjallað um leikinn í átta blaðsíðna íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert