„Þessi leikur var í raun eins og allt tímabilið hjá liðinu. Ákveðið vonleysi sem fylgdi liðinu og þetta hefur verið svona í allt sumar. Menn eru að reyna eins og vitleysingar að gera það sem lagt er upp með. Við fengum fullt af færum og í síðari hálfleik lékum við mjög vel miðað við aðstæður,“ sagði Bjarki Gunnlaugsson leikmaður og þjálfari ÍA eftir jafnteflið gegn KR. Skagamenn eru fallnir í 1. deild en Bjarki segir að leikurinn gegn KR hafi ekki verið leikurinn sem eigi eftir að lifa í minningunni.
„Það var ekki þessi leikur sem allt snérist um. Það voru aðrir leikir sem við vorum að klikka á en þessi staða sem við erum komnir í þjappar okkur bara saman fyrir næstu leiktíð. Í raun má segja að undirbúningstímabilið fyrir næsta tímabil hefjist strax á morgun og við bræðurnir ætlum okkur að fylgja þessu liði áfram sem leikmenn og þjálfarar. Við teljum okkur vera réttu mennina í þetta og það er okkar skylda að halda áfram og búa til lið sem lætur að sér kveða í efstu deild á næstu árum,“ sagði Bjarki.