„Í þessu til að láta sig dreyma“

Hannes markvörður Fram kýlir boltann út í leiknum í dag.
Hannes markvörður Fram kýlir boltann út í leiknum í dag. mbl.is/G.Rúnar

„Ég er mjög ánægður með liðið í dag og ég er búinn að vera sáttur með liðið mitt í allt sumar. Það hafa allir lagt hart að sér bæði í vetur og í sumar og við erum að uppskera eftir því núna,“ sagði kampakátur Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram, eftir sigurinn á Val í Landsbankadeildinni í dag.

Framarar hafa komið mörgum á óvart í sumar og eru nú komnir í þriðja sætið, Evrópusætið svokallaða, þegar ein umferð er eftir. Þorvaldur tók við liði Fram í vetur en lét hann sig dreyma um þennan árangur á fyrstu leiktíð?

„Maður er í þessu til að láta sig dreyma stóra drauma en auðvitað rætast ekki allir draumar. Það er hins vegar alltaf jafn gaman að vakna upp við góðan draum.

Mig langaði að ná langt með liðið en ég er raunsær að eðlisfari. Ég er kannski ekki gáfaður en ekki mjög heimskur og geri mér grein fyrir því að það eru margir leikir yfir sumarið. Hver og einn leikur er gáta sem þarf að leysa og það þýðir ekki að horfa of langt fram í tímann,“ sagði Þorvaldur.

Fram átti eftir leiki við Breiðablik, FH, Val og Keflavík þegar landsleikjahléinu lauk á dögunum og Þorvaldur er ánægður með frammistöðu liðsins í lok móts líkt og í allt sumar.

„Við vorum búnir að safna það mörgum stigum að stemningin í hópnum var mjög góð fyrir þessa síðustu leiki og við ætluðum okkur að ná langt. Nú er einn leikur eftir og við skulum bara sjá til hvort við náum einhverjum stigum í honum,“ sagði Þorvaldur, en Fram leikur gegn Keflavík í lokaumferðinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert