Ingvar Ólason: Þarf að tala við konuna

Hörður Sveinsson, Keflavík, og Ingvar Ólason, Fram í fyrri leik …
Hörður Sveinsson, Keflavík, og Ingvar Ólason, Fram í fyrri leik liðanna í sumar. mbl.is/Hilmar

„Undanfarna daga hefur bara verið tala um Keflavík og FH og þeirra baráttu. Ég held að það hafi hjálpað okkur. Það var náttúrulega mikið undir hjá okkur líka, að ná 3. sæti og Evrópusæti. Það var ekki sett óþörf pressa á okkur,“ sagði Ingvar Ólason sem fann sig vel á miðjunni hjá Fram í bleytunni í Keflavík í dag.

Með hliðsjón af árangri Fram síðustu fimmtán árin eða svo þá hlýtur að vera sætt fyrir Framara að landa Evrópusæti: ,,Alveg gríðarlega. Þegar mótið var að byrja vorum við ekki að setja stefnuna á þetta. Liðið óx allt sumarið og þegar sex umferðir voru eftir þá sáum við að við hefðum alveg karakterinn til þess að ná þessu sæti og settum stefnuna á það,“ sagði Ingvar sem fannst Keflvíkingar vera þreyttari en Framarar þegar á leið leikinn. 

Spurður um hvort skórnir séu nokkuð að fara á hilluna hafði Ingvar þetta að segja: „Núna þarf maður að tala við konuna og fara yfir þetta.“

„Skipti gríðarlega miklu máli fyrir Fram“ 

Auðun Helgason miðvörður tók þátt í því að rétta sínum gömlu félögum í FH hjálparhönd í baráttunni um titilinn: „Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá var ég lítið að hugsa um það. En það er ótrúlega sterkt fyrir FH að vinna núna. Þeir voru að elta í nokkrar vikur og það er erfitt. Keflvíkingarnir gerðu mistök og töpuðu 3:2 fyrir FH og það var ekki nógu gott fyrir þá. Þar með settu Keflvíkingarnir á sig óþarfa pressu og ég fann það í dag að sú pressa var allan tímann til staðar í þeirra liði. Við náðum að nýta pressuna sem var á okkur til þess að virkja kraftinn í okkur. Mér fannst þetta sanngjörn niðurstaða hérna í dag af því að það var svo mikill karakter í okkar liði. Þeir komust reyndar yfir og ég var ekki sáttur við það. Það var klaufalegt af okkar hálfu. En við vorum beittir. Við vorum nokkrum sinnum nálægt því að komast í gegn,  en svo komumst við tvisvar í gegn og skoruðum. Auðvitað má segja að Keflavík hafi verið í erfiðari stöðu en við undir þessum kringumstæðum sem þeir voru í. En þessi leikur skipti alveg gríðarlega miklu máli fyrir Fram. Mér fannst ég alltaf skynja það að við myndum hafa það af að ná þremur stigum hér. Við vorum ósáttir við að tapa fyrir þeim í Laugardalnum þegar við héldum hreinu í 85 mínútur. Við vorum minnugir þess,“ sagði Auðun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert