Markvörðurinn ungi Haraldur Björnsson sem leikið hefur með Hearts í Skotlandi síðastliðin þrjú ár er snúinn aftur heim á Hlíðarenda til að leika knattspyrnu með Landsbankadeildarliði Vals. Hann skrifaði í dag undir samning til þriggja ára.
Í samtali við mbl.is sagði Haraldur fleiri félög hafa sýnt sér áhuga en að hjartað lægi hjá sínu uppeldisfélagi Val.
Samhliða því að leika knattspyrnu hyggst Haraldur, sem er 19 ára gamall, setjast aftur á skólabekk en hann hélt út skömmu eftir að hafa lokið grunnskólanámi.
Í samtali við heimasíðu Hearts segist hann koma til með að sakna þess að vera í Edinborg.
„Ég hef notið þess mjög að vera hjá Hearts og vinna með þjálfurunum hérna og liðsfélögunum. Þeir eru frábærir félagar og mig langar að óska þeim alls hins besta í framtíðinni. Ég hef verið hérna í þrjú ár og finnst tími til kominn að halda heim og einbeita mér að náminu,“ sagði Haraldur.
Hjá Val mun Haraldur keppa um byrjunarliðssæti við landsliðsmarkvörðinn Kjartan Sturluson.