Forráðamenn Knattspyrnusambands Íslands sendu á dögunum mál til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra þar sem að grunur lék á því að leikmaður HK hefði leitað til leikmanns Grindavíkur með það í huga að hagræða úrslitum leiksins. KSÍ hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins og er hún svohljóðandi.
„Tveimur dögum fyrir leik HK og Grindavíkur í Landsbankadeild karla sem fram fór á Kópavogsvelli 18. september sl. barst KSÍ ábending um að leikmaður HK í Landsbankadeild karla hafi leitað til leikmanns Grindavíkur með það í huga að hagræða úrslitum leiksins.
Leikmaður Grindavíkur hafði samband við sína forystumenn sem gerðu KSÍ viðvart og í kjölfarið hafði KSÍ samband við forystumenn HK. Báðir þessir leikmenn eru að erlendu bergi brotnir. Knattspyrnusamband Íslands var í sambandi við forráðamenn beggja félaga og fylgdist náið með leiknum sem fór eðlilega fram. Þá óskaði KSÍ eftir því að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rannsakaði málið þar sem um mjög alvarlegar ásakanir var að ræða. Rannsókn er nú lokið og hefur hún ekki annað leitt í ljós en að samskipti voru á milli leikmannanna sem ekki var hægt að sýna fram á að væru saknæm.
Það er mat KSÍ að viðbrögð forystumanna viðkomandi félaga hafi komið í veg fyrir að nokkuð óeðlilegt gerðist ef slíkt var í raun ætlunin.“