Ólafur Páll Snorrason, knattspyrnumaður úr Fjölni, hefur ákveðið að ganga til liðs við Valsmenn og skrifar undir þriggja ára samning við þá í dag. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ólafi sem birt hefur verið á vef Fjölnis.
Þar segir Ólafur meðal annars: "Knattspyrnufélagið Valur hefur boðið mér samning til næstu þriggja ára sem ég hyggst ganga að með formlegum hætti í dag.Það er gríðarlega erfið ákvörðun að hverfa frá Fjölni á þessum mesta uppgangstíma í sögu félagsins en ég vil við þessi tímamót fá að nota tækifærið til þess að þakka fyrir síðasta eitt og hálfa árið sem ég hef verið í herbúðum Fjölnis. Þetta hefur verið mjög ánægjulegur tími fyrir mig og mér mikill heiður að fá að spila með Fjölni í fyrsta skipti í sögu félagsins í efstu deild. Það að fá að taka þátt í að koma uppeldisfélagi sínu í röð hinna bestu er ómetanleg reynsla fyrir mig."
Sjá nánar yfirlýsinguna í heild.
Fyrr í dag staðfesti annar Fjölnismaður, Pétur Georg Markan, á vísi.is að hann hefði ákveðið að taka tilboði Valsmanna um samning. Fjölnismenn, sem komu geysilega á óvart á sínu fyrsta ári í úrvalsdeildinni síðasta sumar, hafa því orðið fyrir mikilli blóðtöku því Ólafur og Pétur voru lykilmenn í þeirra liði.
Ólafur lék 20 af 22 leikjum Fjölnismanna, skoraði 6 mörk og lagði upp fjölmörg til viðbótar. Pétur skoraði 9 mörk í 21 leik á sínu fyrsta tímabili í efstu deild og var í hópi markahæstu manna deildarinnar.
Ólafur Páll er 26 ára gamall, uppalinn í Fjölni en lék um skeið með Val, 16 ára gamall með meistaraflokki 1998 og aftur tveimur árum síðar, en var annars leikmaður unglingaliðs Bolton Wanderers í Englandi á þeim tíma. Hann lék nokkra leiki með Fjölni í 3. deildinni árið 2001 en fór síðan til Stjörnunnar og spilaði þar í hálft annað ár í 1. deild. Þaðan lá leiðin í Fylki þar sem Ólafur lék 2003 og 2004 og síðan í FH þar sem hann varð Íslandsmeistari 2005 og 2006. Ólafur var síðan í láni hjá Fjölni hluta tímabilsins 2007 og tók þátt í að koma liðinu í úrvalsdeildina. Þar var hann síðan í stóru hlutverki í sumar.