Breiðablik og hollenska úrvalsdeildarliðið AZ Alkmaar hafa náð samkomulagi um félagaskipti Jóhanns Bergs Guðmundssonar. Frá þessu er greint á heimasíðu Breiðabliks og rétt áður hafði komið frétt á heimasíðunni að Jóhann hefði gert samning við Breiðablik sem gilti út árið 2011.
Fréttin á heimasíðu Breiðabliks lítur þannig út:
,,Knattspyrnudeild Breiðabliks og AZ Alkmaar hafa komist að samkomulagi um félagaskipti Jóhanns Bergs Guðmundssonar. Það ríkir sátt um samkomulagið milli félaganna. Það er ánægjuefni að Jóhanni Berg standi til boða að komast í atvinnumennsku og vill stjórn Breiðabliks þakka honum frábæra frammistöðu í sumar og óska honum velfarnaðar í framtíðinni.“