Hólmar Örn: FH-liðið er ekki ósigrandi

Hólmar Örn Rúnarsson í leik með Keflvíkingum á síðustu leiktíð.
Hólmar Örn Rúnarsson í leik með Keflvíkingum á síðustu leiktíð. mbl.is/hag

,,Það er mikill hugur í okkur. Það er mikil tilhlökkun fyrir fyrsta leiknum og ekki skemmir það fyrir að hann er á móti Íslandsmeisturunum," sagði Hólmar Örn Rúnarsson, fyrirliði Keflvíkinga sem í kvöld mæta FH-ingum í sannköllum stórleik í Pepsi-deildinni í knattspyrnu.

Hólmar segir að það sé hvasst í Keflavík en hann vonast til að vindinn verði búinn að lægja eitthvað þegar flautað verður til leiks í kvöld.

,,Það er vel hvasst hér suðurfrá og það er búið að rigna nokkuð mikið en vonandi verður veðrið búið að lagast þegar kemur að leiknum. Það má reikna með aðstæður verði frekar erfiðar en þær koma jafnt niður á báðum liðum,“ sagði Hólmar Örn.

,,Við stefnum að sjálfsögðu á sigur í kvöld og ég tel að við séum með lið sem getur gert það. Þó að FH-liðið sé gott þá er það ekki ósigrandi. FH-ingum hefur gengið allt í haginn á undirbúningstímabilinu en við eins og fleiri höfum verið að byggja upp okkar lið upp á nýtt. Ég held að við séum á góðu róli en það kemur í ljós í kvöld hvar við stöndum,“ sagði Hólmar Örn.

Tveir leikmenn Keflavíkurliðsins eru á sjúkralistanum og spila ekki í kvöld en það eru þeir Ómar Jóhannsson markvörður, sem tæplega kemur nokkuð við sögu í sumar, og Nicolaj Jörgensen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert