Annarri umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu lýkur í kvöld með fimm leikjum en umferðin hófst í gær með leik ÍBV og Breiðablik. Fréttavefur Morgunblaðsins sló á þráðinn til Eysteins Húna Haukssonar, reynsluboltans í liði Grindvíkur og bað hann að spá fyrir um leiki kvöld en Eysteinn gæti þurft að eyða kvöldinu á fæðingardeildinni í stað þess að spila með félögum sínum.
,,Ég þurfti að bruna í bæinn með konuna. Hún er kominn á síðasta mánuð í meðgöngunni og það er hreyfing í gangi. Þetta er líklega það eina sem maður setur í forgang fyrir fótboltann. Ef að það þarf að setja hana af stað þá hringi ég í Janko og læt hann setja son sinn inn í liðið fyrir mig. Ég kvíði þig ekkert því hann er að verða miklu betri en ég,“ sagði Eysteinn við mbl.is.
,,Við erum búnir að ræða vel saman eftir tapið á móti Stjörnunni. Þetta var ekki það lið sem við þekkjum sem spilaði þann leik og það kemur ekki til greina að eiga aftur svona lélegan leik. Við ætlum að taka okkur saman í andlitinu, berja á KR-ingunum og vinna þá,“ sagði Eysteinn.
Um aðra leiki spáir Eysteinn;
Valur - Fjölnir
,,Ég held að Fjölnismennirnir nái að stríða Valsmönnum á Vodafone-vellinum og ná jafntefli, 1:1.“
FH - Fram
,,Ég sé fyrir mér að Íslandsmeistararnir komist á sigurbraut á ný. Þeir merja 2:1 sigur en þurfa að hafa mikið fyrir honum.“
Þróttur - Stjarnan
,,Þetta verður mikill baráttuleikur eins og ávallt á Valbjarnarvelli. Stjörnumennirnir eru með gott sjálfstraust eftir sigurinn á okkur og þeir ná stigi. Ég spái, 1:1.“
Fylkir - Keflavík
,,Ég á von á hörkuleik tveggja góðra liða. Það segir mér sá hugur að Keflavík nái að fylgja eftir góðum sigri á FH og þeir leggi Fylkismennina í spennandi leik, 2:1.“
Leikir kvöldsins hefjast klukkan 19.15 nema leikur Fylkis og Keflavíkur en flautað verður til leiks í Árbænum klukkan 20.