Stjarnan vann stórsigur á Þrótti R. í annarri umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld, 6:0, en leikið var á Valbjarnarvelli. Þróttarar eru því enn án stiga, en Stjarnan hefur unnið báða sína leiki og er efst í deildinni á markamun.
Jóhann Laxdal gerði fyrsta mark leiksins á 20. mínútu, Halldór Orri Björnsson gerði annað markið á 28. mínútu og Steinþór Þorsteinsson kom Stjörnunni í 3:0 á 45. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.
Í seinni hálfleik skoruðu varamenn Stjörnunnar þrjú mörk, Arnar Már Björgvinsson tvö þeirra og Magnús Björgvinsson eitt.
Þróttarar áttu ekkert skilið út úr leiknum, spiluðu lengst af hörmulega, meðan Stjarnan lék á alls oddi og beitti skyndisóknum í síðari hálfleik.
Byrjunarlið Þróttar: Henryk Forsberg Boedker- Birkir Pálsson, Þórður Steinar Hreiðarsson, Dennis Danry, Kristján Ómar Björnsson-Andrés Vilhjálmsson, Rafn Andri Haraldsson, Hallur Hallsson, Skúli Jónsson-Haukur Páll Sigurðsson, Hjörtur Júlíus Hjartarson.
Byrjunarlið Stjörnunnar: Bjarni Þórður Halldórsson-Hafsteinn Rúnar Helgason, Daníel Laxdal, Guðni Rúnar Helgason, Tryggvi Sveinn Bjarnason-Jóhann Laxdal, Björn Pálsson, Birgir Hrafn Birgisson, Halldór Orri Björnsson-Steinþór Freyr Þorsteinsson, Þorvaldur Árnason.