„Vissum að þetta yrði erfitt“

Úr leik KR og Fylkis í kvöld, þar sem hart …
Úr leik KR og Fylkis í kvöld, þar sem hart var barist, eins og sjá má á myndinni. Morgunblaðið/ Kristinn Ingvarsson

Kristrún Lilja Daðadóttir, þjálfari KR í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu, var svekkt eftir tap liðsins gegn Fylki á heimavelli í kvöld. Var þetta fyrsti sigur Fylkis á KR í efstu deild kvenna, en Kristrún segist enn þurfa tíma til að púsla saman liðinu.

„Við erum búnar að vera í ströggli og þurfum tíma í viðbót til að púsla þessu saman hjá okkur. Við vorum ágætlega þéttar í vörninni í kvöld, en það vantaði alveg miðjuspilið til að skapa eitthvað fram á við. Það stoppaði allt þar hjá okkur og vantaði kraftinn finnst mér. Við vorum að vísu heppnar að fá ekki á okkur fleiri mörk, en að sama skapi hefðum við kannski átt að geta potað inn einu marki sjálfar. En við verðum að byggja ofan á þetta, við vissum að þetta yrði erfitt,“ sagði Kristrún.

KR er í 8. sæti deildarinnar með þrjú stig en liðið mætir næst Breiðabliki á heimavelli á miðvikudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert