Það urðu óvænt úrslit í VISA-bikar kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar 1. deildarlið ÍBV tók sig til og vann GRV 5:0 á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum. Með sigrinum er Eyjaliðið komið í sextán liða úrslit en fimm leikir fóru fram í kvöld og meðal annarra úrslita má nefna að Sindri vann Hött 2:1 í framlengdum leik.
Sigurinn er sérlega óvæntur í ljósi góðrar byrjunar GRV í Pepsideildinni þar sem liðið hefur meðal annars unnið 1:0 sigur á Stjörnunni. ÍBV hefur engu að síður átt góðu gengi að fagna í 1. deildinni og skorað fimmtán mörk í fyrstu tveimur leikjunum en ekki fengið neitt á sig.
Þórhildur Ólafsdóttir og Kristín Erna Sigurlásdóttir gerðu tvö mörk hvor fyrir ÍBV í kvöld og Laura East eitt.
Önnur úrslit:
Keflavík - Afturelding/Fjölnir 0:4
Stjarnan - ÍA 8:0
HK/Víkingur - ÍR 1:4
Sindri Höttur 2:1 (eftir framlengingu)