Marko Valdimar Stefánsson, varnarmaðurinn efnilegi í úrvalsdeildarliði Grindvíkinga , lenti í vinnuslysi í dag og svo getur farið að hann leiki ekkert meira með suðurnesjaliðinu á leiktíðinni.
Marko lenti með fótinn í sláttuvél og skarst illa þar sem hnífurinn lenti í tánum en hann var við vinnu á nýja tjaldsvæðinu í Grindavík.
Þetta er mikið áfall fyrir Grindvíkurliðið en Marko, sem er 19 ára gamall og sonur aðstoðarþjálfarans Milan Stefán Jankovic, hefur staðið sig virkilega vel en hann hefur leikið í miðvarðastöðunni í undanförnum leikjum og hefur komið við sögu í sjö af átta leikjum liðsins í Pepsi-deildinni.