KR-ingar áminntir vegna flöskukasts

Jónas Guðni Sævarsson og Einar Orri Einarsson eigast við í …
Jónas Guðni Sævarsson og Einar Orri Einarsson eigast við í umræddum leik KR og Keflavíkur. mbl.is/Eggert

Aga- og úrskurðanefnd KSÍ veitti á dögunum KR-ingum áminningu vegna atviks sem varð í leik KR og Keflavíkur þann 14. júní í Pepsídeild karla í knattspyrnu.

Þá var flösku kastað í átt að leikmanni KR sem lá á vellinum eftir tæklingu og eins og komið hefur fram var þar stuðningsmaður Keflavíkur að verki. Á opinberri heimasíðu KR furða menn sig á því að félagið skuli hljóta áminningu vegna atviksins. Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, segir hins vegar skýrt í reglugerðum að heimalið beri ábyrgð á öryggisgæslu.

„Viðkomandi félag ber alltaf ábyrgð á sínum áhorfendum en það félag sem á heimaleikinn sér um framkvæmd öryggisgæslu og ber ábyrgð á henni samkvæmt reglugerðum. Þetta er hefðbundið og á sér fordæmi og ber kannski frekar að líta á þetta sem vinsamleg tilmæli,“ sagði Þórir og minnti á að Keflavík hefði einnig hlotið áminningu.

„Menn verða auðvitað að huga að því hvaða varning þeir hafa til sölu á leikjum en það er ekkert hægt að setja út á það í þessu atviki. Keflavík fékk auðvitað áminningu líka og ábyrgðin sem slík er náttúrlega frekar hjá Keflavík í þessu tilviki. Félagið fékk samt ekki sekt í þetta skiptið,“ sagði Þórir.

Annað leiðindaatvik varð í lok leiksins sem um ræðir þegar flösku var kastað í stuðningsmann KR. Það hafði þó litla eftirmála.

„Það lágu engin gögn fyrir í því máli svo það var ekki tekið fyrir. Þetta sást hvergi á mynd og enginn hafði samband við okkur vegna þessa og því ekkert hægt að gera,“ sagði Þórir. sindris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert