Atli: Hér get ég varla tapað

Atli Eðvaldsson
Atli Eðvaldsson mbl.is/Eggert

„Hér hef ég unnið svo marga sigra að ég get varla tapað á þessum velli," sagði Atli Eðvaldsson, þjálfari Vals, glaður í bragði eftir að hans menn höfðu lagt KR, 4:3, á KR-vellinum í dag í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í fyrsta leik liðsins í deildinni undir stjórn Atla.

„Þetta var skemmtilegur leikur gegn mjög góðu liði. Við erum á byrjunarreit og ljóst að eftir því sem leikjunum fjölgar þá mun leikur Vals bara batna, það held ég að sé alveg ljóst," sagði Atli.

„Af og til í leiknum þá náðum menn mínir að leika eins og vil að þeir geri en á milli féllum við niður. Alveg fram yfir að við skorum fjórða markið á 67. mínútu þá vorum við í vandræðum á köflum með varnarleikinn en síðan kom það og menn fóru að treysta sér til þess að leika betur. Þá komu margar skemmtilega sóknir upp. Þeim þarf að fjölga og það gerist þegar fram líða stundir," sagði Atli og var stoltur yfir sínum drengjum og sigrinum og benti á að það væri ekki heiglum hent að koma á KR-völlinn og sækja þrjú stig.

„Þetta var mjög erfiður leikur, ekki síst eftir að við KR-liðið missti mann af leikvelli með rautt spjald. Þá gerðist það sem á sér oft stað, jafnvel hjá bestu liðum í heimi, að þau bakka þótt þau séu einum leikmanni fleiri. Það gerðum við að þessu sinni. Hversvegna það á sér stað er erfitt að segja," segir Atli.

„Það var hrikalega erfitt að þurfa að skipta þremur leikmönnum út af í fyrri hálfleik. Þá áttum við enga skiptingu eftir þegar á leikinn leið," segir Atli og viðurkennir að það hafi farið um hann þegar Haraldur Björnsson lenti í samstuði við Guðmund Benediktsson á 50. mínútu. Í fyrstu leit það ekki vel og um tíma leit út fyrir að Haraldur þyrfti að fara af leikvelli. Til þess kom ekki. „Ég spurði Kjartan varmarkvörð hvort hann væri klár að koma í markið en hann svaraði mér að það væri ekki hægt, skiptingarnar væri búnar. Þá leið mér ekki vel," sagði Atli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka