„Við vorum með leikinn í höndunum lengst af fyrri hálfleik og í stað þess að gera út um leikinn þá fáum við á okkur tvö mjög slæm mörk, hreinlega óskiljanleg," sagði Logi Ólafsson, þjálfari KR, sem var að vonum vonsvikinn eftir tap fyrir Val, 4:3, á heimavelli í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag. Logi vildi skrifa tap sinna manna á slakan varnarleik.
„Við fórum hreinlega illa að ráði okkar í varnarleiknum að þessu sinni. Það jákvæða við leikinn var að menn tóku sig saman í andlitinu eftir að við urðum einum leikmanni færri á 55. mínútu. Eftir það vorum við betri aðilinn en það hjálpar voðalega lítið upp á sakirnar þegar við töpum leiknum. Þá er engin huggun í því að vera með betra liðið á vellinum lengst af leiksins," sagði Logi.
„Undir venjulegum kringumstæðum eiga þrjú mörk að duga til sigurs fyrir öll þau opnu færi sem við fengum til viðbótar og áttum að nýta eitthvað af til þess að bæta við mörkum."
Spurður um réttmæti vítaspyrnunnar sem sem dæmd var á KR og rauða spjaldið á Bjarna Guðjónsson, KR-ing, í framhaldinu sagðist Logi ekki geta dæmt um. „Ég sá það ekki nógu vel til þess að geta dæmt um það hvort þetta var rétt. Hinsvegar áttum við klárlega að fá vítaspyrnu þegar hrint var á bak Skúla Jóns undir lok leiksins. Á því leikur enginn vafi í mínum huga," sagði Logi. KR á eftir að mæta Val í tvígang til viðbótar í sumar, fyrst í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar og síðan aftur í Pepsi-deildinni. „Stund hefndarinnar á eftir að renna upp," sagði Logi ákveðinn þar sem hann gekk að KR-velli að loknum tapleik í dag.