Haraldur Freyr Guðmundsson er á ný orðinn leikmaður Keflavíkur og mun leika með liðinu til loka leiktíðarinnar í Pepsideildinni í knattspyrnu.
Haraldur var síðast á mála hjá Apollon Limassol á Kýpur, eftir að hafa leikið í Noregi með Aalesund, en hann var laus allra mála þar. Eftir að hafa kannað landslagið í Evrópu ákvað hann að skrifa undir hjá Keflvíkingum og að sögn Þorsteins Magnússonar formanns knattspyrnudeildar Keflavíkur spilaði eflaust inn í þá ákvörðun sú staðreynd að kona Haraldar er ólétt.
Í samningi Haraldar er ákvæði um að finni hann sér ekki nýtt félag erlendis í vetur muni hann einnig spila með Keflvíkingum næsta sumar.
Haraldur, sem er miðvörður, lék síðast með Keflvíkingum árið 2004.