„Fimm eru greindir með svínaflensuna, tveir eru með venjulega flensu, og svo eru fimm til viðbótar sem hafa ekki fengið niðurstöðu,“ sagði Luka Kostic, þjálfari úrvalsdeildarliðs Grindavíkur í knattspyrnu, í gærkvöldi en svínaflensan hefur tekið sér bólfestu í leikmannahópi liðsins. Þjálfarinn hefur þó sjálfur sloppið.
„Ég er að vona að maður sleppi alveg og fór bara að sofa klukkan hálftíu í gær til að hressa mig við enda líður mér frekar vel í dag. Maður veit samt aldrei hvað gerist. Það eina sem maður óskar sér núna er að strákarnir nái fullri heilsu og við sjáum til með fótboltann. Svo tekur baráttan við á nýjan leik,“ sagði Luka.
KSÍ samþykkti í gær beiðni Grindvíkinga um frestun á leik við ÍBV sem fara átti fram á sunnudag enda er það sjálfsagt fyrir bestu.
„Það er hagur allra að þessum leik sé frestað. Það hefði bara verið hættulegt því við hefðum vel getað smitað önnur lið og það hefði haft keðjuverkandi áhrif,“ sagði Luka.