Átjánda umferð Pepsi-deildar karla fer fram um helgina og fara fimm leikir fram í dag. Umferðinni lýkur á morgun með leik ÍBV og Þróttar, en þá gætu úrslitin verið ráðin í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.
FH-ingar geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð og í fimmta skipti á síðustu sex árum, verði úrslitin þeim hagstæð í 18. umferðinni.
FH hefur 11 stiga forskot á Fylki og 13 stiga forskot á KR, en það eru einu liðin sem geta komið í veg fyrir sigur Hafnarfjarðarliðsins í Pepsi-deildinni í ár. FH og Fylkir eiga fimm leiki eftir en KR-ingar sex leiki.
Úrslitin geta ráðist í dag. Takist KR og Fylki ekki að leggja andstæðinga sína að velli, þegar KR sækir Keflavík heim og Fylkir tekur á móti Fjölni, verður FH Íslandsmeistari, nái liðið að landa þremur stigum á móti Grindvíkingum í Kaplakrika.
FH hefur unnið Íslandsmótið alls fjórum sinnum frá því að liðið hampaði titlinum í fyrsta sinn árið 2004. Valur rauf sigurgöngu FH árið 2007. Eins og áður segir fara fimm leikir fram í dag. Keflavík - KR, Valur - Breiðablik, Fram - Stjarnan, FH - Grindavík og Fylkir - Fjölnir. Á morgun eigast við ÍBV og Þróttur. seth@mbl.is.