Lúkas: Hlutirnir farnir að smella hjá okkur

Lúkas Kostic.
Lúkas Kostic. mbl.is

„Við lékum mjög vel að þessu sinni en einnig hefur það haft sitt að segja að FH-inga vantaði góða leikmenn í lið sitt vegna meiðsla. Úr því að okkur tókst að leika jafn vel og raun bar vitni um þá var það of stór biti fyrir FH-liðið að vera án að minnsta kosti þriggja sterkra leikmanna," sagði Lúkas Kostic, þjálfari Grindavíkur eftir stórsigur liðsins á Íslandsmeisturum FH, 3:0, á Kaplakrikavelli. 

„Við erum með mjög góða leikmenn í Grindavíkurliðinu sem auðvelt eiga með að leika einnar snertingar knattspyrnu, eins og sást vel á tíðum í dag. Nú eru hlutirnir farnir að smella hjá okkur og vonandi verður framhald á því," sagði Lúkas. 

Grindavíkurliðið hefur meira og minna legið í veikindum síðustu daga og vikur. Því vakti athygli að Lúkas skipti ekki inn á varamanni fyrr en fáeinar mínútur voru eftir af leiknum og því ljóst að þeir leikmenn Grindavíkurliðsins sem hófu leikinn hafa jafnað sig vel á veikindunum. Spurður hvort leikmenn hafi að fullu jafnað sig svaraði Lúkas: „Ég vil ekki tala um svínaflensuna, hún hefur verið svo mikið til umræðu upp á síðkastið. Okkur gekk bara vel í leiknum og því fannst mér ekki ástæða til þess að vera að skipta leikmönnum út af þegar allt lék í lyndi," sagði Lúkas.

„Ég vonast til að við séum nú komnir inn á beinu brautina, þessi leikur gefur að  minsta kosti tilefni til þess að ætla það," sagði Lúkas Kostic, þjálfari Grindavíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert