Sigurbjörn Hreiðarsson, markaskorari Valsmanna var sáttur við stigið.
"Ég held að þetta hafi verið mikill jafnteflisleikur, stál í stál og
mér fannst úrslitin sanngjörn,“ sagði hann eftir leikinn.
„Mér fannst við spila ágætlega, vorum
þéttir fyrir enda ekki hægt annað þegar aðstæður eru svona
frábærar. Ég sá ekki þennan vítaspyrnudóm en dómarinn var
ákveðinn. Mér fannst við gefa Eyjamönnum mark þannig að kannski
jafnaðist þetta út. En þetta eru jákvæð úrslit fyrir okkur enda
vorum við ofboðslega lélegir í síðasta leik. Við stigum upp núna,
á erfiðum útivelli og Eyjamenn hafa verið að sækja í sig veðrið.
Stig á útivelli er alltaf jákvætt en við þurfum að laga gengi okkar
á heimavelli. Við förum hins vegar sáttir héðan frá Eyjum í dag."
Arnór Eyvar Ólafsson lék vel í vörn Eyjamanna í dag en fannst
uppskeran þó rýr. "Maður er auðvitað ekkert sáttur. Við skorum
þegar við erum einum fleiri og fáum svo á okkur mjög ósanngjarnt
mark. Andri var með hendurnar niðri við síðu, var ekkert að gera sig
stærri eða var ekkert að reyna að vera fyrir. Hann var stutt frá og
þessi vítaspyrnudómur var bara fáránlegur. Við lítum á þetta sem
tvö töpuð stig enda vorum við komnir yfir. Við ætluðum okkur að
vinna og hefðum átt að vinna þennan leik. Við erum hins vegar ekki
alveg nógu gráðugir í teignum og okkur er refstað illilega fyrir
það. Hins vegar er alltaf gott að fá stig enda erum við ekki alveg
öruggir ennþá."