Flottur leikur, svekktur að fá bara eitt stig

Andri Ólafsson, fyrirliði ÍBV, snýr á tvo leikmenn Grindavíkur sem …
Andri Ólafsson, fyrirliði ÍBV, snýr á tvo leikmenn Grindavíkur sem falla hvor um annan þveran! mbl.is/Víkurfréttir

„Við vorum mun betri í fyrri hálfleik og það var dálítill klaufaskapur að skora ekki fleiri mörk á þeim tíma," sagði Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, við mbl.is eftir jafnteflið, 1:1, við Grindvíkinga í úrvalsdeildinni í kvöld.

„Planið var að keyra á þá strax frá byrjun. Þetta var okkar fjórði leikur á tíu dögum og ég vissi að við yrðum þreyttir þegar liði á leikinn. Grindavík spilaði fyrir þremur dögum síðan og það var því eðlilegt að hraðinn yrði minni í seinni hálfleik. Þess vegna var dýrmætt fyrir okkur að skora snemma. Það heppnaðist og við héldum áfram, mér fannst við spila glimrandi fótbolta í fyrri hálfleik en leikurinn jafnaðist í þeim seinni," sagði Heimir.

„Mér fannst þetta vera flottur leikur hjá okkur og er svekktur yfir því að fá bara eitt stig úr honum, og vera ekki búnir að tryggja okkur í deildinni. Það hefði verið þægilegt að fara í útileik gegn FH með það í hendi að vera þegar lausir úr fallhættu. Við eigum erfitt prógramm eftir á lokakaflanum, og þess vegna voru næstu leikir á undan þessum miklir úrslitaleikir fyrir okkur. Við vildum vera komnir með góðan stigafjölda fyrir lokasprettinn. Það er búin að vera góð sigling á okkur frá því í síðasta leiknum í fyrri umferð mótsins en frá þeim tíma er eina tapið okkar í útileik gegn KR, sem í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við. Ég er að öllu leyti ánægður með peyjana," sagði Heimir.

Hann hefur nú misst þá Ajay Leitch-Smith og Chris Clements aftur til Crewe. Þeir voru ekki með í kvöld, sátu reyndar á bekknum sem liðsstjórar, en fara utan í fyrramálið og verða ekki með heldur í síðustu þremur leikjunum.

„Þetta eru góðir leikmenn en það kom ekki að sök að vera án þeirra í kvöld. Aðrir leikmenn fengu þeirra hlutverk og stóðu undir því. En í næsta leik, gegn FH á útivelli, verðum við bæði með Andra og Þórarin í banni og þá fer það að verða þyngra að vera án þeirra.

Þeir Ajay og Chris eru sjálfir hundsvekktir yfir því að vera á förum. Þeim leið mjög vel hjá okkur og það voru tár á hvarmi þegar þeir voru kvaddir. Þeir voru hálf grátandi með okkur í Herjólfi í gær. Ég á  von á því á því að þeir fari beint í leikmannahópinn hjá Gauja í Crewe á laugardaginn, hann vantar mannskap og þurfti að fá þá til sín," sagði Heimir. 

Hann vildi sérstaklega hrósa einum sinna manna fyrir frammistöðuna í kvöld. „Ég get ekki annað en dáðst að Eiði Aron sem er á fyrsta ári í meistaraflokki hjá okkur og stóð sig eins og kóngur í vörninni í kvöld, gegn Gilles Ondo. Mér fannst hann eiga stórkostlegan leik," sagði Heimir Hallgrímsson.

Nánar er fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert