Í fréttatilkynningu sem Valsmenn voru að senda er frá því greint að Gunnlaugur Jónsson hafi verið ráðinn þjálfari karlaliðs Vals í knattspyrnu og tekur hann við liðinu eftir tímabilið. Skotinn James Bett verður aðstoðarmaður Gunnlaugs en Bett hefur jafnframt verið ráðinn þjálfari 2. flokks félagsins.
Í fréttatikynningu Valsmanna segir meðal annars;
,,Gunnlaugur tekur við stjórn Valsliðsins að aflokinni yfirstandandi leiktíð og binda Valsmenn miklar vonir við störf hans að Hlíðarenda. Hann mun njóta stuðnings og aðstoðar James Bett, sem ráðinn hefur verið þjálfari 2.flokks karla hjá Val.
Ráðning Betts, sem undanfarin ár hefur verið þjálfari hjá nokkrum kunnustu félögum Skotlands, er mikið fagnaðarefni og er hluti af nýrri afreksstefnu knattspyrnudeildar Vals sem kynnt verður nánar á allra næstu dögum.
Auk þess að þjálfa karlalið félagsins verður Gunnlaugur yfirmaður Afrekshóps Vals, sem er annar angi nýrrar afreksstefnu, en þennan hóp skipa efnilegustu leikmenn beggja kynja.“