„Það er vond tilfinning að tapa og það er vond tilfinning að falla. Við erum mjög svekktir með niðurstöðu sumarsins,“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis eftir að lið hans féll úr efstu deild eftir tap á Laugardalsvelli í kvöld.
„Við erum búnir að vera í ströggli nokkuð lengi og vissum að þetta var okkar síðasta hálmstrá og menn ætluðu auðvitað að gera vel. Í fyrri hálfleik komum við okkur í vonda stöðu enda virkuðu menn yfirspenntir þá. Við lékum betur í seinni hálfleiknum og það var vilji í liðinu en það vantaði herslumuninn,“ sagði Ásmundur.
Hann á eitt ár eftir af samningi sínum og hefur hug á að halda áfram. „Mér hefur liðið vel í Grafarvoginum,“ sagði hann.
Nánar er fjallað um leik Fram og Fjölnis í Morgunblaðinu í fyrramálið.