Forráðamenn Hauka og Selfoss ásamt bæjaryfirvöldum á báðum stöðum þurfa að takast á við erfitt verkefni á komandi vikum og mánuðum. Vandamálið sem félögin glíma við er það hvar þau eigi að spila heimaleiki sína í úrvalsdeildinni í knattspyrnu á næstu leiktíð en liðin tryggðu sér á dögunum sæti í efstu deild – Selfoss í fyrsta sinn í sögu félagsins en Haukar í annað.
Hvorugt liðið uppfyllir kröfur leyfiskerfis KSÍ en ekki eru áhorfendastúkur við velli félaganna og önnur aðstaða, t.d. fyrir fjölmiðla, er bágborin. Morgunblaðið spjallaði við forráðamenn félaganna og innti þá eftir því hvað til stæði að gera en Haukar spiluðu leiki sína í sumar á gervigrasi og það gerðu Selfyssingar líka í byrjun tímabilsins.
Í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag er rætt við forráðamenn Hauka og Selfoss sem skýra frá því hvaða hugmyndir séu í gangi um heimaleiki liðanna næsta sumar.