Kristján: Ákvörðun um framhald tekin eftir helgi

Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur. Árni Sæberg

„Það var ákveðið á dögunum að ræða ekki framhaldið fyrr en eftir síðasta leik á Íslandsmótinu. Nú er sá leikur að baki og þá stendur fyrir dyrum að ræða hvort ég verð áfram með liðið eða ekki. Ég reikna með að það skýrist á mánudag eða þriðjudag hvað verður í þeim efnum," sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, eftir lokaleik liðsins í Pepsi-deild karla í knattspyrnu hvar það vann ÍBV, 6:1.

„Það er ljóst að sú ákvörðun sem við tökum verður gerð með hagsmuni Keflavíkurliðsins að leiðarljósi," sagði Kristján og færðist undan því að svara hvort áhugi væri af hans hálfu að halda áfram með liðið sem hann hefur þjálfað síðustu fimm árinu. „Það er hinsvegar alveg ljóst að það er ekkert sem segir að þjálfari sem stýrt hefur liði í fimm ár geti ekki áfram haldið um stjórnvölin og „mótíverað" lið sitt. Ég tel mig eiga margt inn í þeim efnum, ég held að úrslit síðustu leikja í deildinni sýni það. En ég undirstrika að þegar ákvörðun um framhald verður tekin þarf að hafa hagsmuni liðsins í forgrunni," segir Kristján en nokkuð hefur verið um það rætt hvort hann haldi áfram eða ekki og hafa nöfn ýmissa manna verið nefnt sem hugsanlegir eftirmenn Kristjáns.

„Við verðum að vanda okkur við þá ákvörðun sem tekin verður vegna þess að það er mikil pressa á Keflavíkurliðinu. Þess vegna verður að taka rétt skref ef liðið á að vera í toppbaráttu. Hvort sem ég verð áfram eða ekki þá verður að taka rétt skref," segir Kristján.

„Það var gaman að vinna síðasta leikinn jafn stórt og raun ber vitni um, þá sérstaklega fyrir áhorfendur okkar hér í Keflavík. Á hverju sumri höfum við unnið einn til tvo leiki með miklum mun á heimavelli. Það hafði ekki tekist á þessari leiktíð fyrr en nú," sagði Kristján.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert