Gunnleifur Gunnleifsson landsliðsmarkvörður í knattspyrnu er að öllu óbreyttu á leið til Íslandsmeistara FH frá 1. deildarliði HK, sem hann hefur spilað með undanfarin átta ár.
Gunnleifur er samningsbundinn HK og forráðamenn félaganna eiga í viðræðum þessa dagana.
„Ég bíð og sé til hvað kemur út úr viðræðum félaganna en vissulega væri það spennandi kostur að spila með FH," sagði Gunnleifur við mbl.is í kvöld.
HK náði ekki að endurheimta sæti sitt í úrvalsdeildinni en Kópavogsliðið hafnaði í þriðja sæti 1. deildar. Gunnleifur var í láni hjá Vaduz í Sviss fyrri hluta ársins en spilaði átta síðustu deildaleiki HK. Hann hefur verið í byrjunarliði landsliðsins í síðustu sex landsleikjum og í átta leikjum alls frá síðasta hausti.