Atli Guðnason, hinn létti og lipri sóknarmaður FH, var besti leikmaður úrvalsdeildarinnar í fótbolta árið 2009, að mati íþróttafréttamanna Morgunblaðsins. Hann fékk í gær veglegan bikar af því tilefni en óhætt er að segja að Atli hafi átt drjúgan þátt í að FH hreppti sinn fimmta Íslandsmeistaratitil á sex árum.
Atli er uppalinn FH-ingur, nýorðinn 25 ára, og hefur smám saman unnið sér fastan sess í Hafnarfjarðarliðinu á undanförnum árum. Hann sagði við Morgunblaðið að sjálfstraust og gagnkvæmt traust frá leikmönnum og þjálfurum skipti höfuðmáli.
„Ég hef alltaf vitað að ég væri góður í fótbolta en þetta er liðsíþrótt og maður gerir ekkert einn. Það þarf að ávinna sér smátt og smátt traust samherjanna, þjálfaranna og allra sem að liðinu koma og leggja í það dugnað og vinnu. Það finnst mér hafa gengið upp og ég held að það hafi endurspeglast í mínum leik í sumar,“ sagði Atli sem skoraði 11 mörk í deildinni og tvö í bikarnum, auk þess að eiga stóran þátt í mörgum öðrum mörkum FH-liðsins.
Sjá nánar viðtal við Atla í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag og umsagnir nokkurra þjálfara um hann. Þá er lið ársins hjá Morgunblaðinu að finna í blaðinu í dag.