Gunnleifur Gunnleifsson landsliðsmarkvörður í knattspyrnu er genginn til liðs við FH. Íslandsmeistararnir komust að samkomulagi við HK um félagaskiptin í dag en Gunnleifur var samningsbundinn Kópavogsfélaginu út næsta tímabil.
Gunnleifur skrifar undir þriggja ára samning við Hafnarfjarðarfélagið en hann hefur spilað með uppeldisfélagi sínu, HK, undanfarin átta ár, í 2. deild, 1. deild og úrvalsdeild. Þar á undan lék hann um nokkurra ára skeið með Keflavík og KR.
Daði Lárusson, sem hefur varið mark FH um langt árabil, hefur í kjölfarið verið leystur undan samningi við Íslandsmeistarana.