Tor Erik Moen, norski knattspyrnumaðurinn sem lék með Grindavík í sumar, kveðst vera í viðræðum við Grindvíkinga um nýjan samning. Hann segir að það sé nóg af peningum í fótboltanum á Íslandi, þar bjóðist mun betri laun en í Noregi og þessvegna hafi hann áhuga á að halda áfram að spila í íslensku úrvalsdeildinni.
Moen kom til Grindvíkinga frá Haugesund í lok júlí en hann lék áður með Moss, Rosenborg og Skeid. Hann er 26 ára gamall og spilaði átta leiki með Grindavíkurliðinu á lokasprettinum í deildinni.
„Ég fer bara peninganna vegna, ég myndi ekki nenna að vera þar bara í ævintýraleit. Fótboltafélögin á Íslandi eru ekki í vandræðum, þau eru betur sett en félögin í Noregi. Sjávarútvegurinn dælir peningum í þau, og þessvegna gengur þetta upp. Ég fæ mikið betri laun þar en í Noregi," sagði Moen við blaðið Namdalsavisa í dag.
Moen kveðst hafa fengið tilboð um tveggja ára samning en hafi bara áhuga á að semja til eins árs. „Ég hef ekki ákveðið mig ennþá og ef ég verð á Íslandi nægir mér að fara þangað í febrúar eða mars. En Grindvíkingar vilja eflaust fá svar frá mér fyrr," sagði Moen.